Sími: 511-2555 | Hafa samband

Reykskynjarar eru ódýr öryggistæki sem ættu að vera á hverju heimili. Skerandi vælið í þeim getur bjargað mannslífum. En til þess þurfa þeir:

  1. Að vera til staðar og á réttum stað
  2. Að vera réttrar gerðar og í lagi
  3. Að hafa góða rafhlöðu

Til eru tvær megingerðir af reykskynjurum, optískir og jónískir, auk skynjara sem sameinar eiginleika beggja. Jóníski skynjarinn skynjar vel reyk með stórum ögnum, til dæmis opinn eld, en síður upphaf glóðarbruna, til dæmis í sófa, sem optíski skynjarinn nemur hins vegar mjög vel. Því er æskilegt að hafa báðar gerðirnar á heimilinu. Einnig eru til samtengjanlegir reykskynjarar og skynjarar með ratljósi.


Hafið eftirfarandi í huga um reykskynjara:

  • Ekki staðsetja reykskynjara í eða of nálægt eldhúsi
  • Setjið optískan reykskynjara á ganga eða opin svæði
  • Setjið optískan reykskynjara nálægt rafmagnstöflu
  • Æskilegt er að setja reykskynjara í öll svefnherbergi
  • Best er að samtengja alla reykskynjara í húsinu
  • Sé húsið fleiri en ein hæð, setjið reykskynjara á allar hæðir
  • Reykskynjara ber að staðsetja í lofti, ekki nær vegg en 50 sm
  • Skiptið um rafhlöðu í reykskynjaranum árlega
  • Prófið reykskynjarann mánaðarlega með því að ýta á prófunarhnappinn.
  • Líftími reykskynjara er um það bil tíu ár. Aðgætið framleiðsludag/ár þegar reykskynjari er keyptur.

Handslökkvitæki

Til eru margar gerðir slökkvitækja sem hafa má á heimilum. Mikilvægt er að allir á heimilinu viti hvar slökkvitæki eru geymd og hvernig á að beita þeim. Slökkvitæki ber að yfirfara árlega af viðurkenndum þjónustuaðilum.


Duftslökkvitæki eru ætluð á alla elda. Ekki er þó tryggt að duftið slökkvi eld þar sem myndast hefur glóð. Ráðlögð stærð á heimili er sex kg.


Duftslökkvitæki eru aðallega ætluð á elda í föstum efnum, til dæmis timbri, vefnaði og pappír. Algengasta stærð tækjanna er tíu lítrar.


Léttvatnslökkvitæki eru vatnsslökkvitæki sem froðuefni hefur verið bætt út í. Þau duga á sömu elda og vatnstækin, en auk þess á olíu-, feitis- og rafmagnselda. Algengastu stærðir eru sex og tíu lítrar.


Eldvarnateppi

Eldvarnateppi eru til í mörgum stærðum og þau má nota aftur og aftur. Teppið er lagt yfir hinn brennandi hlut og þétt að. Ef teppið fer ofan í feiti í potti getur logað í gegnum það. Þá er teppið tekið af og byrjað upp á nýtt.